Klappir Grænar Lausnir hf. – Rekstur og erlend starfsemi.
Rekstur þriðja ársfjórðungs 2018
Rekstrartekjur samkvæmt óendurskoðu uppgjöri Klappa Grænna Lausna voru 61,4 m.kr. á þriðja ársfjórðungi ársins 2018, samanborið við 50,4 m.kr. árið áður. Vöxtur rekstrartekna milli ára er 21,8%. Rekstrartekjur á fyrstu 9 mánuðum ársins 2018 voru 185,8 m.kr. samanborið við 148,7 m.kr. árið áður. EBITDA á þriðja ársfjórðungi, var jákvæð um 7,0 m.kr. og á fyrstu 9 mánuðum ársins var hún jákvæð um 16,6 m.kr.
Erlend starfsemi
Klappir Grænar Lausnir hafa gert hluthafasamkomulag við Eignarhaldsfélagið Hof ehf. um rekstur á sameiginlegu félagi í Litháen, undir nafninu Klappir Lithuania UAB. Félagið verður að 51% hluta í eigu Klappa og 49% í eigu Hofs. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að aðilar komi sameiginlega og í jöfnum hlutföllum, með allt að 10m.kr. í formi hlutafjár eða með víkjandi láni. Félaginu er ætlað að annast sölu á hugbúnarlausnum Klappa í Litháen og eftir atvikum í baltnesku löndunum. Í hluthafasamkomulaginu er ákvæði þess efnis að Hof geti að fimm árum liðnum óskað eftir því að fá framlagða fjármuni að viðbættum 8% ársvöxtum, endurgreidda. Klappir getur þá hvort heldur sem er greitt þá fjárhæð með peningagreiðslu eða með B-hlutabréfum í Klöppum Grænum Lausnum hf. miðað við gengi bréfanna hinn 1. janúar 2023.
Markmið Klappa með samkomulaginu er annars vegar að nýta fjármuni félagsins, sem best í útrás félagsins og hins vegar að ná til samstarfs aðila með viðskiptatengsl í baltnesku löndunum, en Hof er eigandi að IKEA verslunum í Litháen og Lettlandi.
Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri
“Rekstur Klappa er samkvæmt áætlun og íslenskum notendum á hugbúnaði Klappa fjölgar jafnt og þétt. Fjórðungurinn hefur markast af því að mikil áhersla hefur verið lögð á að byggja upp erlenda starfsemi félagsins. Byrjað er að kynna hugbúnaðarlausnir Klappa á sviði siglinga gagnvart skipafélögum og höfnum erlendis, og hafa lausnirnar fengið góðar viðtökur. Þá er stofnun dótturfélags í Litháen fyrsta skrefið í dreifingu hugbúnaðarlausna félagsins erlendis í gegnum svæðisbundnar skrifstofur.”
Frekari upplýsingar veitir:
Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa Grænna Lausna, sími: 664-9200.