Rekstur fyrsta ársfjórðungs 2019 – Viðræður um samruna við Stika ehf.
Rekstrartekjur samkvæmt óendurskoðuðu uppgjöri Klappa grænna lausna hf. voru 51,4 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi ársins 2019. EBITDA á sama tímabili var neikvæð um 13,9 m.kr.
Afkoma ársfjórðungsins var í megin atriðum í takt við væntingar félagsins en mætir ekki að öllu leyti áætlunum þess. Klappir kýs að notendur hugbúnaðirns geti unnið sem mest sjálfstætt og því hefur á tímabilinu verið lögð áhersla á að gera hugbúnað félagsins þannig úr garði að hann auðveldi notendum sjálfstæða vinnu við gerð umhverfis- og samfélagsuppgjöra (ESG). Þessar viðbætur við hugbúnaðinn hafa þýtt að tekjur af innleiðingar- og ráðgjafarvinnu hafa dregist saman en að sama skapi jukust áskriftartekjur af hugbúnaði Klappa sérstaklega undir lok ársfjórðungsins. Reiknað er með áframhaldandi aukningu á áskriftartekjum í takt við fjölgun notenda.
Veruleg fjárfesting hefur verið í uppbyggingu á erlendum mörkuðum, aðlögun á hugbúnaði fyrir erlenda viðskiptavini og stuðningi við erlenda samstarfsaðila.
Notendum hugbúnaðar Klappa fjölgar hratt, sérstaklega notendum á Klappir EnviroMaster sem er umhverfishugbúnaður Klappa og Klappir LogCentral hugbúnaði fyrir alþjóðleg kaupskip. Almenn dreifing á Klappir PortMaster er hafin á hafnir innanlands og hefur hún gengið vel.
Í samræmi við stefnu félagsins hefur stjórn Klappa ákveðið að ganga til viðræðna við Stika ehf. um mögulegan samruna félaganna með það fyrir augum að Klappir sé yfirtökufélagið. Félögin hafa átt farsælt samstarf og sjá margvíslegan ávinning af nánara samstarfi.
Um Klappir.
Klappir grænar lausnir hf. er leiðandi hugbúnaðarfyrirtæki á sviði umhverfismála. Lausnir og aðferðafræði Klappa fela í sér söfnun, vinnslu og miðlun umhverfisupplýsinga, þar sem mögulegt er að greina gögnin, setja upp töluleg markmið og fá heildstæða yfirsýn yfir mengandi starfsþætti.
Um Stika.
Stiki ehf. er leiðandi þjónustufyrirtæki á svið upplýsingaöryggis. Stiki þróar hugbúnaðinn Risk Management Studio (RM Studio) til áhættugreiningar og áhættustjórnunar í rekstri en slíkur hugbúnaður kemur til með að verða æ mikilvægari þegar spáð er fyrir um áhrif loftslagsbreytinga á samfélög, fyrirtæki og einstaklinga. Samhliða þessu veitir Stiki ráðgjöf við innleiðingu ISO stjórnunarstaðla. Jafnframt felst þjónusta félagsins í þróun, hýsingu og rekstri heilsumatskerfa fyrir innlendar heilbrigðisstofnanir. Fyrirtækið hefur verið starfandi í yfir aldarfjórðung og er með viðskiptavini í yfir 20 löndum.